Setbergsskóli hlaut fyrstu og önnur verðlaun í Stóru upplestrarkeppninni

23.3.2021

Það var einstaklega gaman að fá að fylgjast með flottum og faglegum lesurum í Stóru upplestrarkeppninni á dögunum. Nemendur sem sigruðu í hverjum skóla lásu af mikilli fágun fyrir okkur í Víðistaðakirkju. Sérdeilis gaman var þegar tilkynnt var um úrslitin, en fyrsta sæti hlaut Rán Þórarinsdóttir og annað sæti hlaut Lilja Dís Hjörleifsdóttir, en þær eru báðar nemendur hér við Setbergsskóla. Við erum stolt af þeim og færum þeim innilegustu hamingjuóskir.

Það var líka gaman að hlusta á falleg orð sem fullorðna fólkið hafði að segja um frammistöðu allra nemenda þetta kvöld. Menntamálaráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir varð að koma aðeins of seint vegna vinnu á Alþingi þar sem unnið var að menntastefnu til ársins 2030. Hún talaði um þrjú megin leiðarstef sem höfð verða að leiðarljósi í menntastefnunni en þau eru hugrekki, þrautseigja og hamingja. Það krefðist einmitt hugrekkis að koma fram og lesa í keppni eins og þessari. Þá þyrfti mikla þrautseigju til að gefast ekki upp, halda áfram, æfa sig meira og meira. Uppskeran væri svo hamingja með frábæra frammistöðu og að hafa náð svona langt. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sagði okkur svo stutta sögu af sjálfum sér og hve mikilvægt það er að allir finni sína hillu, að allir finni eitthvað sem veiti þeim hamingju. Að við ættum að horfa á öll börnin í skólunum, gefa öllum gaum svo allir geti notið hamingju í lífinu.

Þá voru hvatningarorð Ingibjargar Einarsdóttur til barnanna hugljúf en um leið svo styðjandi og hvetjandi. Það má með sanni segja að Ingibjörg hafi unnið þrekvirki á þessum 25 árum sem hún hefur fylgt verkefninu, Stóru upplestrarkeppninni, eftir. Nú munu sveitarfélögin taka keppnina upp á sína arma. Er það von okkar að  það verði gert af sama metnaði og samtökin Raddir hafa haft fyrir keppninni frá upphafi. 


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is