Foreldrasamstarf

Foreldrar

Í Setbergsskóla er lögð áhersla á gagnkvæmt traust og virkt samstarf milli heimilis og skóla. Stefnt er að því að foreldrar og forsjáraðilar séu virkir þátttakendur í námi barna og vel upplýstir um starfsemi skólans.

Margt er gert til að upplýsa foreldra og forsjáraðila um starfið innan skólans og tryggja að þeirra rödd skipti máli. Meðal annars með upplýsingagjöf í gegnum Mentor, vikupóstum, tölvupósti, símtölum, kynningum á niðurstöðum kannana, haustfundum, á samtalsdögum, bekkjarforeldrafundum, virku foreldrafélagi og með daglegum samskiptum á milli heimilis og skóla. Skólaþing eru haldin í samvinnu við skólaráð þar sem fulltrúar foreldra, nemenda og starfsfólks fá vettvang til samtals um skólastarfið.

Haustfundir

Haustfundir eru vettvangur fyrir stjórnendur, umsjónarkennara og foreldra til að fara yfir grunngildi skólans og eiga samtal um skólastarfið og áherslur þess innan árganga.

Samtalsdagar

Foreldrar og nemendur eru kallaðir til samtals við kennara að hausti og miðjum vetri á sérstökum samtalsdögum sem sjá má á skóladagatali. Umsjónarkennarar boða til samtalsins með viku fyrirvara. Eftir samtölin skila kennarar samantekt á því helsta sem fram kom í samtölunum til stjórnenda.

Upphaf skólagöngu

Við upphaf skólaárs eru öll 6 ára börn boðuð til samtals við umsjónarkennara ásamt foreldrum. Fyrir samtalið fá foreldrar sendan gátlista sem fylltur er út heima og nemendur koma með í samtalið. Sérkennari hittir líka nemendur og fer yfir þekkingu þeirra á stöfum og stafahljóðum.