Hagnýtar upplýsingar

Foreldrar

Í skólanum er starfandi áfallateymi. Hlutverk þess er að skipuleggja viðbrögð við áföllum hjá nemendum og starfsfólki. Með áföllum er átt við alvarleg veikindi eða dauðsföll í nemendahópnum eða hjá starfsfólki, maka starfsfólks eða börnum. Ef slík tilvik koma upp er unnið eftir áfallaáætlun skólans. Einnig er áfallateymi kennurum og öðru starfsfólki til ráðgjafar þegar þurfa þykir. Áföll tilkynnast til skólastjóra sem stýrir áfallateymi og ákveður fyrstu viðbrögð.

Í teyminu eru:

 • María Pálmadóttir, skólastjóri.
 • Kolbrún Björnsdóttir, náms- og starfsráðgjafi.
 • Halla Birgisdóttir, skrifstofustjóri
 • Carolin K. Guðbjartsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur.
 • Margrét Ólöf Jónsdóttir, aðstoðarskólastjóri, skóla- og frístundaliði

Hægt er að hafa samband við áfallateymið í síma 664 5880.

Morgunfrímínútur

 • 1.–4. bekkur kl. 9:50–10:10.
 • 5.–7. bekkur kl. 10:10–10:30.
 • 8.–10. bekkur kl. 9:50–10:10.

Skóla- og frístundaliðar, og kennarar, fara út í frímínútur með börnunum, aðstoða við leiki og eru til taks ef eitthvað kemur upp á. Ef veður leyfir ekki útiveru eru nemendur innandyra undir umsjón kennara og skólaliða.

Hádegishlé

 • 1.–4. bekkur kl. 11:30–12:10.
 • 5.–10. bekkur kl. 12:10–12:50.

Skóla- og frístundaliðar og kennarar fylgjast með og aðstoða í matsal.

Leyfi um inniveru í frímínútum

Ef nemendur yngri deilda þurfa að vera inni í frímínútum þurfa þeir að hafa með sér beiðni að heiman til umsjónarkennara þar sem ástæða óskar um inniveru er tilgreind. Miðað er við að nemandi sé ekki inni í meira en 1 dag eftir veikindi.

Heimanám byggir á samstarfi milli heimila og skóla. Það er mikilvægt að foreldrar sýni námi barna sinna áhuga og aðstoði þau við heimanámið sitt. Heimanám miðast við vinnu á virkum dögum og vikuáætlun sem finna má í Mentor

Markmið með heimanámi er að nemendur þjálfi og rifji upp það sem kennt hefur verið í skólanum, þrói með sér góða námstækni og námsvitund, verði sjálfstæðir í vinnubrögðum og öðlist smám saman færni í að undirbúa sig fyrir skólann. Einnig er þetta kjörið tækifæri fyrir foreldra til að fylgjast með námi barna sinna. 

Heimalestur

Til að ná góðum árangri í lestri er mikilvægt að barnið lesi upphátt heima alla virka daga. Við upphaf lestrarnáms er góð regla að lesa hverja blaðsíðu að minnsta kosti tvisvar sinnum. Það gefur barninu aukna færni í að lesa orðmyndir, auk þess sem lesturinn verður oftast þjálli þegar sami texti er lesinn öðru sinni.

Lesa á heima fyrir einhvern fullorðinn sem kvittar fyrir í þar til gerð kvittanahefti. Áhersla er lögð á að nemendur fái efni við hæfi svo að lesturinn verði sem ánægjulegastur.

Foreldrar eru hvattir til að lesa áfram upphátt fyrir börn sín, jafnvel þó að þau séu sjálf farin að lesa. Flest börn ráða einungis við mjög léttan texta í byrjun, en hafa þörf fyrir að vinna með flóknari texta sem fellur betur að þroska þeirra og áhuga. Lestur foreldra og umfjöllun um textann eykur orðaforða barna og bætir málþroska, en góður málþroski er einn af grunnþáttum alls náms.

Vikuáætlanir

 • Heimanám nemenda hefst fljótlega við upphaf skólans.
 • Í desember verður ekki sent heimanám hjá 1.–7. bekk fyrir utan heimalestur.
 • Eftir miðjan desember er ekki heimanám hjá 8.–10. bekk.
 • Heimanám hefst á ný í byrjun janúar.
 • Heimanámi og undirbúningi fyrir próf lýkur seinni partinn í maí.
 • Ekkert heimanám er í vetrar-, páska- og jólafríum og á þemadögum.

Áætlaður tími í heimanám

Það fer eftir aldri og einstaklingi hversu lengi í einu nemendur geta einbeitt sér. Ef foreldrum finnst fara óeðlilega mikill tími í heimanám þá er mikilvægt að ræða málin strax við kennara og leita lausna.

Heimavinna ætti að taka að meðaltali:

 • 1.–2. bekkur: 10–15 mínútur á dag.
 • 3.–4. bekkur: 15–20 mínútur á dag.
 • 5.–6. bekkur: 30–40 mínútur á dag.
 • 7. bekkur: 40–50 mínútur á dag.
 • 8.–10. bekkur: 6 klukkustundir á viku.

Gott að hafa í huga

Friður og ró
 • Yngri nemendum (og mörgum sem eldri eru) finnst gott að vera í nálægð við einhvern fullorðinn við námið.
 • Námið hefur forgang.
Ekki of seint á kvöldin
 • Best er að taka frá fastan tíma til að sinna heimanámi.
Æfingin skapar meistarann
 • Einn tilgangur með heimanámi er að endurtaka efni sem þegar hefur verið farið í, það er að þjálfa betur ákveðin atriði.
Jákvætt talað um heimanám
 • Líta heimanámið jákvæðum augum því jákvætt hugarfar auðveldar flest verk.
 • Forðast samanburð við systkini eða aðra.
 • Virða hvern og einn eins og hann er. Jákvæð hvatning hjálpar en of mikil pressa getur skaðað.

Upphaf skólagöngu

Foreldrar eru ábyrgir fyrir innritun barna sinna í grunnskóla á árinu sem þau eru 6 ára. Innritun í grunnskóla Hafnarfjarðar fer fram á Mínum síðum á vef Hafnarfjarðar. Börn hafa sjálfkrafa aðgang að hverfisskóla þar sem þau eru með lögheimili en hægt er að sækja um annan skóla.

Við upphaf skólagöngu eru haldnir fundir með nemanda og foreldrum eða forsjáraðilum. Foreldrum er boðið á haustfundi þar sem farið er yfir áherslur í skólastarfinu. Að vori er haldið námskeið fyrir aðstandendur sex ára nemenda í tengslum við skólaupphafið.

Þegar nýr nemandi er skráður í skólann er honum og foreldrum hans boðið að koma í heimsókn í skólann. Stjórnendur taka á móti þeim og kynna skólastarfið og sýna þeim húsnæðið. Námsráðgjafi hittir alla nýja nemendur þegar þeir eru byrjaðir í skólanum og farnir að átta sig aðeins á skólastarfinu.

Móttaka nemanda á miðjum vetri  

Þegar nýr nemandi er skráður í skólann er honum og foreldrum hans boðið að koma í heimsókn í skólann. Stjórnendur taka á móti þeim og kynna skólastarfið og sýna

þeim húsnæðið. Nemandi mætir fyrst utan skólatíma ásamt foreldrum sínum og hittir væntanlegan umsjónarkennara.

Umsjónarkennari sér um að:

 • Afla upplýsinga frá foreldrum um nemandann almennt, námsgengi (meðal annars athuganir og greiningar), félagslega stöðu, skólagöngu hingað til, heilsufar, trúarbrögð, tengsl við aðra nemendur í skólanum og svo framvegis. Ef eitthvað er athugavert við heilsu nemandans skal umsjónarkennari benda foreldrum á að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing. Umsjónarkennari fylgist með því að þær upplýsingar komist til skila.
 • Gefa foreldrum kost á að koma í skólann ásamt nemandanum til að hitta sig og skoða skólahúsnæði.
 • Afhenda foreldrum og nemanda stundatöflu og ritfangalista og benda þeim á hvar frekari upplýsingar er að finna (til dæmis á heimasíðu skólans).
 • Gera foreldrum grein fyrir skólastefnum, skólareglum og starfsvenjum í skólanum.
 • Veita upplýsingar um almenn atriði eins og viðtalstíma, nestismál, klæðnað í íþróttum, tilkynningar um forföll, beiðnir um leyfi og þess háttar.
 • Fara yfir skólareglur með foreldrum og nemanda.
 • Skipa nemandanum í viðeigandi hóp í sérgreinum og láta annað starfsfólk vita af nýjum nemanda.
 • Segja bekkjarfélögum frá komu nýs nemanda og virkja þá til að leiðbeina honum og auðvelda aðlögun í skólanum.
 • Sjá um í samráði við húsvörð að húsgögn séu til staðar fyrir nemandann.
 • Láta bekkjarfulltrúa fá upplýsingar um að nýir samstarfsforeldrar hafi bæst í hópinn.

Nemendur með íslensku sem annað tungumál

Nemendur sem koma frá útlöndum eða eru með annað móðurmál en íslensku fara oftast í heimaskóla sinn ef þau eru á aldrinum 6–9 ára þegar þau hefja grunnskólanám í bænum en eldri nemendur með annað móðurmál en íslensku geta farið í móttökudeild í Lækjarskóla í ákveðinn tíma áður en þau hefja nám í heimaskóla.

Foreldrar ásamt nemanda eru boðaðir í viðtal í skólann áður en skólinn hefst á haustin til að hitta umsjónarkennara og fá allar helstu upplýsingar um skólann. Túlkur er hafður með í viðtalinu. Á fundinum fá foreldrar aðstoð við að fylla út innritunargögn sem innihalda nauðsynlegar upplýsingar um nemandann. Óskað er eftir afhendingu gagna (einkunnir, bólusetningarvottorð, greiningargögn og fleira) ef þau eru til staðar. Í lok fundar er foreldrum og nemanda sýndur skólinn og kennslusvæðin.

Morgunmatur

Öllum grunnskólabörnum í Hafnarfirði er boðið upp á hafragraut 20 mínútum fyrir fyrstu kennslustund. Grauturinn er borinn fram í matsalnum frá 08:00–08:20.

Hádegismatur

Hægt er að skrá barn í heitan mat í hádeginu sem Skólamatur sér um. Matseðill fyrir vikuna birtist á vef skólans og Skólamatar.

Í byrjun skólaárs þarf að skrá barn í mataráskrift á vefsíðu Skólamatar. Það er hægt að velja fasta áskrift 5 daga vikunnar, sérstaka daga eða kaupa stakar máltíðir. Áskriftin framlengist sjálfkrafa um 1 mánuð, nema ef áskrift er sagt upp eða breytt.

Lögð er áhersla á næringu barna, umhverfissjónarmið og matarsóun. Allir matseðlar eru næringarútreiknaðir og farið eftir ráðleggingum embættis Landlæknis. 

Sjá verðskrá.

Nemendur sem kjósa að vera ekki í mataráskrift geta komið með nesti að heiman og borðað í matsalnum þar sem er aðgangur að örbylgjuofni og samlokugrillum.

Hressing

Á morgnana er hressing og hægt er að kaupa áskrift að ávöxtum- og grænmeti hjá Skólamat. Nemendur sem þurfa meira í magann eða kjósa að vera ekki í áskrift hafa með sér létta og holla hressingu að heiman. Dæmi um hollt og næringarríkt nesti: gróft brauð, ávextir, grænmeti, soðið egg eða hreinar mjólkurvörur. 

Systkinaafsláttur af mataráskrift

Ef þú átt 2 eða fleiri börn í grunnskóla færðu 25% afslátt af mataráskrift fyrir annað systkinið og 100% afslátt frá og með því þriðja. Systkini verða að vera með sama lögheimili og fjölskyldunúmer í Þjóðskrá.

Ef þú uppfyllir þessar reglur þarf ekki að sækja um sérstaklega, annars þarf að sækja um á Mínum síðum Hafnarfjarðarbæjar. Sækja þarf um fyrir 20. mánaðar til að fá afslátt fyrir mánuðinn eftir. Afslátturinn er ekki afturvirkur.

Ofnæmi

Ef nemendur eru með ofnæmi fyrir einhverjum matvælum er mikilvægt að upplýsa skólann og þau sem sjá um matinn um það.

Setbergsskóli er hnetulaus skóli. Í skólanum eru nokkrir nemendur með bráðaofnæmi fyrir hnetum og mikilvægt að allir taki tillit til þeirra þar sem hnetur geta valdið mjög hættulegum ofnæmisviðbrögðum. Þetta þýðir að hvorki nemendur né starfsfólk koma með hnetur af neinni gerð í skólann. Bæði er átt við jarðhnetur og trjáhnetur.

Setbergsskóli notar náms- og upplýsingakerfið Mentor þar sem nemendur geta séð stundatöfluna sína, fylgst með ástundun og námsframvindu. Foreldrar og nemendur hafa aðgang að kerfinu með kennitölu og lykilorði. Foreldrar hafa sama aðgang og nemendur auk þess að geta fylgst með skráningum í dagbók nemandans.

Foreldrar geta haft samband með tölvupósti við foreldra barna í bekk barnsins síns og kennara skólans í gegnum Mentor, tilkynnt veikindi og leyfi sem eru 3 dagar eða styttri, bókað viðtöl við kennara og fleira.

Oft safnast töluvert af óskilafatnaði á göngum skólans. Ef fötin eru merkt komast þau strax til skila og því mikilvægt að merkja föt, skó og aðrar eigur barnanna.

Óskilamunir eru teknir fram og eru sýnilegir á viðtalsdögum þegar búist er við foreldrum í skólann. Foreldrar geta líka komið við í skólanum hvenær sem er ef þeir sakna einhvers.

Fatnaður sem er ósóttur eftir lok hvers skólaárs er gefinn til Rauða krossins.

Nemendur í grunnskólum í Hafnarfirði fá ókeypis stílabækur, skriffæri, möppur og önnur ritföng sem þeir þurfa á að halda í daglegu skólastarfi. Námsbækur eru einnig ókeypis eins og alltaf hefur verið. Ætlast er til að ritföng verði eftir í skólanum og að nemendur geti unnið heimanám með ritföngum sem eru til á heimilinu.

Foreldrar þurfa aðeins að sjá börnum sínum fyrir skólatösku, sund- og íþróttafatnaði og skriffærum til notkunar heima.

Markmiðið er að draga úr kostnaði foreldra við nám barna sinna, tryggja jafnræði, nýta fjármuni betur og draga úr sóun.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) sendir út tilkynningar um veður þegar á þarf að halda, í samráði við lögreglu og skólayfirvöld.

Mikilvægt er að foreldrar og forsjáraðilar fylgist vel með fréttum af veðri, veðurspám og öðrum tilmælum frá yfirvöldum sem gætu haft áhrif á skólastarf barna og bregðist við í samræmi við aðstæður hverju sinni.

 • Leiksýningar í 4., 5. og 10. bekk.
 • Stuttmyndagerð í 7. bekk.
 • Vinavika.
 • Rýnihópar nemenda.
 • Skólafærninámskeið.
 • Nóvember – mánuður læsis.
 • Lestrarsprettir tvisvar sinnum á ári.
 • Stóra upplestrarkeppnin er sett á degi íslenskrar tungu.
 • Litla upplestrarkeppnin í mars.
 • Jólahald: kirkjuheimsóknir, bæjarferðir, jólaskemmtanir, jól í skókassa, samfélagsverkefni (festa í árgöngum), jólaguðspjallið, jólasveinar og jólasveinkur.
 • Leikskólanemendur taka þátt í skólastarfi og farið er í heimsóknir í leikskóla.
 • Skólabúðir í Reykjaskóla í 7. bekk.
 • Skólabúðir að Laugarvatni í 9. bekk.
 • Vorferð 10. bekkja í Þórsmörk.
 • Sveitaheimsókn í 3. bekk.
 • Fræðasetur Sandgerði í 4. bekk.
 • Rithöfundaheimsóknir.
 • Lestrarvinir.
 • Aðstoð nemenda í matsal.
 • Haustnámskeið fyrir foreldra, jólaföndur og páskabingó í samstarfi við foreldrafélag skólans.
 • Þemadagar.
 • Söngur á sal.
 • 100 miða leikur.
 • Vorhátíð foreldrafélagsins.

Það er hlutverk foreldra og forsjáraðila að ákveða reglur um notkun spjaldtölvunnar heima fyrir, hvað nemandi má gera og hve lengi. Oft getur verið gott að foreldrar í bekk eða árgangi samræmi slíkar reglur sín á milli, hversu mikil notkun megi vera, hve lengi í einu, hve lengi fram eftir og svo framvegis.

Í Setbergsskóla fá allir nemendur í 5.— 10. bekk spjaldtölvu til afnota.

Nemendur í 5.–7. bekk geyma spjaldtölvurnar að mestu í skólanum. Spjaldtölvurnar eru geymdar í sérstökum skáp þar sem þær eru hlaðnar yfir nótt. Kennari getur þó beðið nemendur um að taka spjaldtölvu með heim ef þörf er á til að vinna ákveðin verkefni.
 
Nemendur í 8.–10. bekk fara með spjaldtölvurnar heim í lok skóladags og koma með þær hlaðnar næsta skóladag. Mikilvægt er að tölvan sé alltaf fullhlaðin í byrjun dags þar sem hún er mikið notuð í kennslu og hætta á að tölvan eða hleðslutæki skemmist við að hlaða á göngum og í skólastofum. Ef það gerist þurfa foreldrar að útvega skólanum nýtt tæki.

Við lok hvers skólaárs skila nemendur spjaldtölvunni ásamt hleðslutæki til skólans til geymslu yfir sumarið.

Í boði er fjölbreytt úrval valmöguleika fyrir nemendur í 8.–10. bekk. Sumar valgreinar eru sameiginlegar fyrir 8.–10. bekk, aðrar fyrir 9. og 10. bekk og nokkrar valgreinar eru einungis fyrir 10. bekk.

Valgreinabæklingur er sendur til nemenda á vorin og settur inn á svæði þeirra á Google-classroom og nemendur velja fög áður en skóla lýkur fyrir sumarið.

Valgreinar eru kenndar hálft ár í senn, 1 til 2 kennslustundir í einu nema annað sé tekið fram í áfangalýsingu. Valgreinar eru ekki aukagreinar heldur eru þær jafn mikilvægar og kjarnagreinarnar og kröfur um ástundun og árangur þær sömu.

Val er bindandi fyrir komandi skólaár og því er mikilvægt að vanda valið. Ef ekki er nóg þátttaka í einstaka valgreinum geta þær fallið niður.

Metið val

Nemendur geta fengið metið nám utan skólans sem 2 kennslustundir á viku í staðinn fyrir valgrein. Ef nemandi stundar tvær íþróttagreinar eða nám utan skóla má fá 4 kennslustundir metnar. 

Dæmi:

 • Tónlistarskóli
 • Myndlistarskóli.
 • Nám við framhaldsskóla.
 • Skákskóli.
 • Reiðskóli.
 • Tungumálaskóli.
 • Dansskóli.
 • Skipulagt íþróttastarf.

Til að staðfesta þátttöku í utanskólavali þarf nemandi að skila sérstöku eyðublaði sem skólinn leggur til með undirskrift foreldris. Nemendur og foreldrar bera fulla ábyrgð á þessum skilum til að starfið fáist metið.

Veikindi

Foreldrar þurfa að tilkynna veikindi gegnum Mentor eða á skrifstofu skólans í síma 565 1011 fyrir 8:30. Ef það er ekki gert er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða. Standi veikindi yfir í nokkra daga á að tilkynna þau fyrir hvern dag.

Leyfi

Leyfi í 2 daga eða minna er hægt að tilkynna í Mentor, með tölvupósti eða hringja í skólann í síma 565 1011

Leyfi fyrir meira en 3 daga þarf að tilkynna sérstaklega á vefsíðu skólans. Skólinn gefur ekki út sérstakt heimanám eða sérverkefni til nemenda í leyfum né gerir tilfærslur á námi. Allt nám er á ábyrgð forsjáraðila meðan á leyfi stendur.