Samstarf við aðra skóla

Nám og kennsla

Framhaldsskóli

Nemendur í 10. bekk geta valið stærðfræði 103 sem er kennd í Flensborgarskóla. Áfanginn er 3 kennslustundir og er heilsárskúrs.

Frá nóvember til febrúar eru námsbrautir framhaldsskólanna, inntökuskilyrði og innritunarferli kynnt fyrir nemendum 10. bekkjar.

Janúar

Framhaldsskólakynning í Hafnarfirði þar sem allir framhaldsskólar á höfuðborgarsvæðinu kynna sína skóla. Kynningin er í sal Flensborgarskóla og sjá námsráðgjafar grunnskólanna og Flensborgarskóla um skipulag.

Febrúar

Fulltrúar frá Flensborgarskóla og Iðnskólanum koma með ítarlegar kynningar á námsbrautum og námsfyrirkomulagi inn í 10. bekkina.

Fundað með foreldrum nemenda sem sækja um á starfsbrautum og farið með viðkomandi nemendur í heimsóknir í skólana sem þeir sækja um í. Gengið er frá þessum umsóknum.

Febrúar – apríl

Opin hús hjá framhaldsskólunum sem eru vel kynnt fyrir nemendum og foreldrum. Nemendur eru hvattir til að fara á opnu húsin.

Mars

Kynningafundur fyrir foreldra þar sem námsráðgjafi kynnir námsbrautir, inntökuskilyrði og innritunarferli.

Mars – apríl

Forinnritun í framhaldsskóla sem er kynnt fyrir nemendum. Námsráðgjafi fylgist með því að nemendur sæki um skóla og aðstoðar eftir þörfum.

Maí – júní

Lokainnritun og fylgir námsráðgjafi því eftir með nemendum og aðstoðar nemendur og foreldra eftir þörfum. Námsráðgjafi er oft í sambandi við námsráðgjafa framhaldsskólanna, fundar með foreldrum og nemendum og skrifar bréf með einstökum nemendum.

Námsráðgjafi fundar með rektorum og námsráðgjöfum Flensborgarskóla og Iðnskólans og fylgir eftir nemendum sem þess þurfa.

Leikskóli

Árum saman hefur verið öflugt samstarf milli leikskóla hverfisins, Hlíðarendar og Hlíðarbergs. Því er ætlað að skapa samfellu í námi barnanna og milda skiptin milli skólastiga. Þannig skapast öryggi sem hefur beina tengingu við námsárangur.

Elstu börnin af Hlíðarenda og Hlíðarbergi koma í nokkrar skólaheimsóknir.

  1. Í kringum mánaðamótin október/nóvember fá börnin leiðsögn um skólann, skoða umhverfi og aðstöðu og kíkja við í 1. bekkjunum.
  2. Í vinaviku í nóvember koma börnin á vinaball þar sem þau hitta 1. bekkinga og dansa saman á sal. Nemendur í unglingadeild stjórna dansi og kenna þeim sporin.
  3. Mánaðamótin janúar/febrúar koma börnin í heimsókn og vinna verkefni með 1. bekkingum, fara með þeim í frímínútur, borða með þeim nesti og eiga notalega skólastund saman.
  4. Á þemadögum er börnunum boðið í heimsókn.
  5. Fyrstu dagana í maí taka börnin þátt í skemmtun á sal Setbergsskóla með 1.–3. bekk.

Í september fara nemendur í 1. bekk í heimsókn í leikskólana. Þar fá nemendur að hitta vini sína og taka þátt í starfinu sem fer fram á leikskólunum.

7. bekkingar fara reglulega í heimsókn í leikskólana þar sem þau koma og lesa fyrir börnin. Það er einnig hluti af undirbúningi þeirra fyrir Stóru upplestrarkeppnina.