Áherslur

Skólinn

SMT-skólafærni

Markmið SMT (School Management Training), sem er hafnfirsk útfærsla á bandarísku aðferðinni Positive Behavior Support (PBS), er að skapa jákvætt andrúmsloft í skólum, stuðla að góðu námsumhverfi og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks.

Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda, meðal annars með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Þessi nálgun byggir á margra ára rannsóknum sérfræðinga í Oregon í Bandaríkjunum og er framkvæmd í samráði við þá. 

Skýrar og sýnilegar reglur

SMT-skólafærni þjálfar félagsfærni og æskilegri hegðun er veitt aukin athygli með markvissu hrósi og umbunum. Skýr fyrirmæli eru höfð að leiðarljósi og rækt lögð við góð samskipti. Þannig skapast betra námsumhverfi fyrir bæði nemendur og kennara. Reglur skólans eru skýrar og sýnilegar þannig að bæði nemendur og kennarar vita til hvers er ætlast.

Skólahúsnæðinu er skipt upp í svæði og gilda ákveðnar reglur á hverju svæði fyrir sig. Reglur eru kenndar eftir ákveðinni áætlun og gerðar sýnilegar á þeim svæðum sem þær gilda um.

Geislagleði

Hrós er notað sem jákvæð og árangursrík hvatning. Hvatning í formi hróss eykur sjálfstraust barna og er árangursríkust ef hrósið er nákvæmt og ef það er gefið fyrir nýja og betri hegðun og færni. Geisli er gefinn þegar starfsmaður verður vitni að æskilegri hegðun nemanda eins og að fara eftir reglum eða þegar hann sýnir framför. Einnig er hægt að gefa hópgeisla. Þegar geisli er gefinn nefnir starfsfólk eða skráir á geislann fyrir hvaða hegðun nemandinn fær geislann. Haldin er geislagleði þegar tilskyldum fjölda geisla hefur verið safnað.

Olweusar-áætlunin gegn einelti

Markmiðið er að skapa jákvæðan skólabrag og bekkjaranda til þess að fyrirbyggja einelti og andfélagslega hegðun.

Setbergsskóli hefur slegist í hóp þeirra fjölmörgu skóla sem hafa innleitt Olweusaráætlunina til að draga úr einelti. Markmiðið er að skapa jákvæðan skólabrag og bekkjaranda til þess að fyrirbyggja einelti og andfélagslega hegðun. Áætlunin gerir ráð fyrir að allir starfsmenn skólans þekki einelti og hvernig skuli bregðast við því. Virkt eftirlit er í frímínútum, íþróttahúsum, ferðalögum, matsal, kennslustofum og hvar sem nemendur koma saman.

Nemendur fá fræðslu um einelti, birtingarform þess og afleiðingar fyrir bæði gerendur og þolendur. Allir bekkir skólans vinna bekkjarreglur á haustin og bekkjarfundir eru haldnir reglulega, þar sem meðal annars er tekið á samskiptum, eineltismálum og rætt um skólabrag.

Þekking foreldra á verkefninu og tilgangi þess er mjög mikilvæg. Þeir eru því hvattir til að kynna sér foreldrabækling Olweusaráætlunarinnar og starfa með skólanum við að uppræta einelti.

Eineltisteymi

Í skólanum er eineltisteymi sem heldur fundi tvisvar í mánuði og oftar ef þurfa þykir. Eineltisteymið fer yfir allar tilkynningar um einelti, styður við þá sem eru að vinna úr málum og tryggir að unnið sé eftir áætlun skólans. Í ráðinu eru fulltrúi stjórnenda, námsráðgjafi, Olweusarfulltrúi og deildarstjóri.

Eineltis- og forvarnarteymi 2023-24

Nafn Staða
Kolbrún Björnsdóttir Náms- og starfsráðgjafi, teymisstjóri
Margrét Ólöf Jónsdóttir Aðstoðarskólastjóri
Margrét Stefánsdóttir Umsjónarkennari og deildarstjóri unglingastigs
Arnar Helgi Magnússon Umsjónarkennari
Ragnheiður Hjálmarsdóttir Umsjónarkennari
Tinna Rós Pálsdóttir Umsjónarkennari
Svavar Sigurðsson Íþróttakennari
Róbert Gíslason Deildarstjóri tómstundastarfs
Rebekka Yvonne Rogers Leiðbeinandi í Bergi
Sigurbjörg Guðdís Hannesdóttir Þroskaþjálfi í Bergi

Teymiskennsla

Síðan haustið 2019 hefur verið teymiskennsla í Setbergsskóla. Þá er nemendum ekki kennt í sérstökum bekkjum heldur bera umsjónarkennarar sameiginlega ábyrgð á öllum nemendahópnum innan hvers árgangs.

Í teymiskennslu sameina umsjónarkennarar, og aðrir kennarar sem koma að árganginum, krafta sína og þekkingu í þágu nemenda.

Kostir teymiskennslu

  • Kennarar bera sameiginlega ábyrgð á kennslu og velferð nemenda.
  • Meiri samvinna kennara um nemendahópinn.
  • Mismunandi hæfileikar kennara nýtast við skipulag og úrvinnslu náms og félagslegra mála.
  • Félagahópur nemenda er fjölbreyttari.
  • Aukin samvinna stuðlar að meiri samheldni og samstöðu innan nemendahópsins.
  • Nemendur kynnast fleiri kennurum og hafa fleiri til að leita til.

Við upphaf skólaárs gera kennarar áætlun fyrir hvern árgang þar sem línur eru lagðar fyrir kennslufyrirkomulag vetrarins. Kennarar í teymum bera sameiginlega ábyrgð á námsframvindu og velferð allra nemenda samkvæmt aðalnámskrá og bera jafna ábyrgð á samskiptum og samvinnu við foreldra.